Snjókorna Cupcakes!

Image

 

Sunnudagar til sælu. Sunnudagar einnig til hvíldar, fundar, lærdóms, hreingerningar, baksturs, bloggs og lesturs.
Já, stundum ætlar maður sér að gera of margt á einum degi. Dagurinn í dag er einmitt svoleiðis dagur. Ég ætlaði að gera allt að ofantöldu, en “óvart” varð lærdómur og lestur að víkja fyrir hinu. Kannski mæti ég bara með þessar cupcakes í tíma á morgun – þá yrði mér örugglega strax fyrirgefið að hafa ekki lesið mikið heima ;-).
Veturinn hefur aðeins verið að láta vita af sér á Akureyri seinustu vikuna. Það snjóaði og snjóaði, bíllinn festist svona 10 sinnum, krakkar sem og fullorðnir gerðu snjóhús og ég þurfti að moka mér leið út úr húsinu mínu.

Í tilefni af því ákvað ég að gera fínar vetrar-snjókornacupcakes. Þær eru afar fallegar og samt einfaldar í gerð.
Deigið er bara skúffukökudeig – uppskrift má finna hér. Kremið er hinsvegar nýtt – og alveg ótrúlega gott!!

 

Hér er uppskriftin

Image

 

Snjókorna-Cupcakes 

 

Deigið, eins og ég sagði áðan má finna hér. 
ATH! Í þeirri uppskrift er kakan bökuð í 30-35 mín en bollakökurnar þurfa bara ca 20 mín.
Gott að stinga prjóni í kökurnar og ef að ekkert deig festist á prjóninum þá eru þær til :).

Leyfið bollakökunum að kólna áður en þið byrjið á kreminu því það þarf að sprauta því á um leið og það er búið til. 🙂

 

Kremið – Innihald:

 

4 eggjahvítur

1 bolli sykur

¼ tsk Cream of Tartar

1 tsk vanilludropar

 

Kremið – aðferð:

 

 1. Eggjahvíturnar ásamt sykri og Cream of Tartar sett í skál sem þolir hita.
 2. Skálin síðan sett yfir pott af heitu vatni og hitað upp í 70°C og pískað allan tíman.
 3. Þegar blandan hefur náð 70°C er hún færð yfir í hrærivél og byrjað að hræra hægt og svo hraðar og hraðar og blandað þangað til kremið er orðið stíft.
 4. Þá er vanilludropum ásamt matarlit (ef þið viljið) bætt út í og hrært aðeins.
 5.  Kreminu síðan sprautað á.

 

Image

 

 

Snjókornin:

 

 • Hægt er að nota hvítt súkkulaði brætt og sprautað á smjörpappír eins og snjókorn.
 • Gott að teikna snjókornin á smjörpappírinn.
 • Setjið í frysti eða opnið glugga þannig að súkkulaðið harni og takið svo af smjörpappírnum með spaða og setjið á kökurnar. Gaman er að skreyta þær líka með litlum kúlum 🙂 . 
 • Mér finnst stundum hvíta súkkulaðið vera of gulleitt og þess vegna notaði ég núna mjallarhvítan súkkulaðihjúp, sem fæst hér á alltikoku.is

 

 

 

 

Image

 

 

Image

 

 

ImageKoma svona krúttlega út 🙂

 

 

Verði ykkur að góðu – og gleðilegan vetur! 
-Unnur Anna

 

Auglýsingar

Cupcakes með Sviss marenge kremi

Image

Þessar cupcakes heita Billy’s Vanilla Vanilla cupcakes og eru alveg fáránlega góðar! En kremið ofan á þeim, heitir Sviss-marenge krem og það er það besta sem ég hef smakkkað! Það er hægt að gera allskonar bragðtegundir úr þessu kremi en ég ætla að setja inn hér uppskrift af grunninum og þremur bragðtegundum með; Jarðaberja, lime/kókos og mokka.

Ég fékk þessa uppskrift frá systur mömmu, Auði sem er algjör cupcake snillingur! Hún er snillingur í fleiru og þið getið kíkt á síðuna hennar hér! 🙂

Svo vil ég líka benda ykkur á að hún frábæra mamma mín tekur allar fallegu myndirnar á þessari síðu, og hún er líka með blogg og þið getið kíkt á það hér 🙂

Image

Hér er svo uppskriftin af Billy’s vanilla vanilla  með Sviss marenge kremi:

Billy’s vanilla vanilla cupcakes:

Innihald:
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
1 msk lyftiduft
3/4 tsk salt
250 gr lint smjör/smjörlíki (hef prófað bæði, mér finnst betra að hafa smjörlíki)
4 stór egg
1 bolli nýmjólk
1 tsk vanilludropar

Aðferð:

 • Hitið ofnin í 175°C
 • Hrærið saman þurrefnunum. Hrærið á litlum krafti þar til þurrefnin hafa blandast vel saman. Bætið þá linu smjörinu/smjörlíkinu út í og hrærið vel. (Verður dálítið þurrt)
 • ATH! Gott er að bæta 1 1/2 msk af kakói út í deigið í þessu skrefi, ef þið ætlið að gera mokka krem!
 • Pískið saman í öðru íláti, egg, mjólk og vanilludropa.
 • Bætið þessu svo saman við hræruna í vélinni, í þremur skömmtum. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman, en ekki hræra of lengi!
 • Setjið deigið í möffinsform, fyllið 2/3 af hverju formi með deigi. (ATH. mér finnst mjög gott að nota ísskeiðar til að setja í formin. Það er bæði þæginlegra en að vera með tvær venjulegar skeiðar og möffinsin verða allar jafnstórar! 🙂 )
 • Mér finnst mjög gott að vera með mini cupcake form því þau eru fullkomin stærð! Hin geta verið svolítið stór og það geta ekki allir torgað stórum cupcakes! 🙂
 • Bakið í miðjum ofni í 17 – 20 mín.
 • Látið möffinsin kólna alveg áður en kremið er sett á, svo það bráðni ekki á þeim.

Image

Sviss – marenge krem:

Innihald:
5-6 eggjahvítur
1 1/4 bolli sykur (Hægt að setja púðursykur í staðinn, t.d. ef maður er að gera mokka krem)
1 tsk vanilludropar
250 g lint smjör (Betra að hafa smjörið mjög lint, helst búið að standa á borði í nokkrar  klst)
Hægt er að setja matarlit ef á við 🙂

Aðferð:

 • Þeytið eggjahvíturnar á fullum hraða í vél
 • Setjið sykurinn út í smátt og smátt og hrærið í a.m.k 5 mín, eða þar til þær eru alveg stífar
 • Setjið vanilludropana út í og hrærið í smá stund
 • Bætið linu smjörinu smátt og smátt útí og hrærið vel á milli
 • Kremið á til að skilja sig í þessu skrefi eða verða kekkjótt, en örvæntið ekki, það þarf bara að hræra á fullu í a.m.k 10 mín og þá verður það fínt!
 • Þetta er vanillukremið. Nú ef þið mynduð vilja vanillukrem á cupcakes-in þá væri ekkert annað í stöðunni núna en að sprauta kreminu á, eða smyrja það á!

Image

 • Ef þið viljið annað bragð í kremið þá er það gert þegar kremið eins og það er núna er búið að hrærast vel í a.m.k 5 mín og þá er bragðefnið sett útí smátt og smátt
 • Þá á kremið það aftur til að skilja sig, og þá er bara að halda áfram að hræra og það mun lagast aftur!

Hér eru 3 dæmi um bragðefni:

Jarðaberja:

 • 1 box jarðaber + 2-3 msk appelsínusafi mixað ör sutt í blandara (ekki alveg í mauk þá) og bætt svo út í kremið
 • Ég ef líka prufað að setja bara nokkrar msk af jarðaberjasultu beint út í kremið og það var líka mjög gott!

Lime/kókos:

 • Limesafi + lime börkur (ca. 1 1/2 lime) + 2-3 msk kókosmjöl sett út í kremið
 • Alltaf gott að smakka kremið og bæta meiru við ef þarf!

Mokka:

 • 2-3 msk (eftir smekk) af rótsterku kaffi ásamt 1 msk af kakóki hrært saman og svo kælt sett út í kremið
 • Einnig er gott að setja nokkrar (kannski 1 msk) af söxuðum súkkulaðihúðuðum kaffibaunum út í kremið og nota svo aðeins minna saxaðar kaffibaunir sem skraut ofan á.
 • Í þessu kremi er gott að nota púðursykur í staðinn fyrir venjulegan sykur!

Image

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna