Jarðarberjasæla!

IMG_7356

Það hefur mikið gengið á síðan ég bloggaði seinast. Kannski þess vegna sem það leið mjög langur tími á milli þessara tveggja blogga. Ég lék í leikriti, dansaði á minni seinustu vorsýningu hjá Point dansstúdíó og fór í mína seinustu prófatíð. Ég útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní, átti afmæli, fékk staðfest að ég væri að fara í Hússtjórnarskólann í Reykjavík í haust – og fékk litla sæta íbúð í vesturbænum og munum við Helga Rún flytja þangað um miðjan næsta ágúst. Það eru því spennandi tímar framundan líka.

Ég ætla að fara með allt á fullt núna á síðunni og ég er með margar frábærar hugmyndir. Mamma kom heim frá Danmörku um daginn með fullt af nýjum uppskriftarbókum sem ég get ekki beðið eftir að prófa, blanda saman, breyta og deila með ykkur :).

IMG_7361

Þessi jarðaberjasæla er svona klassísk gamaldags jarðarberjaterta sem ég fann í gömlu uppskriftarbókinni hennar mömmu. Það sem ég elska gömlu uppskriftarbókina hennar. Hún er stútfull af handskrifuðum uppskriftum sem mamma hefur fengið héðan og þaðan í gegnum tíðina. Hún er notuð að minnsta kosti þrisvar í viku og mér finnst ekkert smá gaman að gramsa aðeins í henni og finna gamlar góðar uppskriftir :).

Hér er uppskriftin af þessari frábæru einföldu jarðarberjatertu.

 IMG_7344

Innihald:

6 eggjahvítur

300 g sykur

1/8 tsk salt

2 tsk borðedik

ca ½ líter rjómi

1-2 Box jarðarber

IMG_7347

Jarðarberjasæla – Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 150 °C
 2. Þeytið eggjahvíturnar saman í smá stund
 3. Bætið sykrinum útí hægt og rólega
 4. Bætið salti og ediki saman við.
 5. Setjið í eldfast mót, ég nota 28 cm sporöskjulaga form
 6. ATH! Marengsinn fyllir mjög líklega nánast upp í allt formið, en mun falla alveg slatta þegar hann er tekinn úr ofninum.
 7. Bakið við 150°C í 30 mínútur og svo við 175°C í 30 mínútur
 8. Leyfið aðeins að kólna.
 9. Því næst er rjóminn þeyttur og svo settur ofan á marengsinn.
 10. Jarðarberin eru skorin og röðuð fallega ofaná eða sett heil ofan á. Ég skar þessi jarðarber með eggjaskera,
  þannig urðu allar sneiðarnar jafn þykkar og þetta tók enga stund!

IMG_7351

IMG_7354

IMG_7372

– og Voila! kakan er til!

 IMG_7373

Njótið svo með bestu lyst!

IMG_7379

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

Auglýsingar

Skúffukaka Agnesar frænku!

Sumarið er aðeins of fljótt að líða. Ég er búin að vera á fullu í vinnunni, baka fyrir aðra, hjálpa til við brúðkaupsundirbúning hjá bróður mínum og hef voða lítið haft tíma fyrir að baka, hvað þá að blogga!  En nú í dag er ég loksins í fríi og þá er ekkert annað í stöðunni en að setja eina uppskrift inn og er hún ekki í verri kantinum, hin umtalaða skúffukaka Agnesar frænku.

Þessi skúffukaka er ótrúlega góð og fylgir skemmtileg saga með henni.
Agnes frænka er systir ömmu minnar og þessi skúffukaka kemur upprunalega frá henni. Svo fékk mamma mín, sem heitir líka Agnes, uppskriftina og erum við mæðgur mjög duglegar við að baka hana. Hún hefur vakið mikla lukku og hafa margir fjölskyldumeðlimir farið með uppskrift af henni heim úr afmælum. Ættingjar okkar eru því líka að fá uppskriftina frá Agnesi frænku og hefur því nafnið á skúffukökunni haldist, Skúffukaka Agnesar frænku! 🙂

En hér kemur uppskriftin og ég lofa að vera duglegri að setja inn blogg, sérstaklega eftir brúðkaupið hjá bróður mínum! 😉

Image

Skúffukaka Agnesar frænku

innihald:

250 g smjörlíki
350 g púðursykur
2 egg
350 g hveiti
2 msk kakóduft
1 tsk matarsódi
250  mL súrmjólk

Aðferð:

1. Hitið ofnin í 180°C. Hrærið saman mjúku smjörlíki og púðursykri þar til deigið verður ljóst og létt

2. Bætið einu eggi út í, hrærið í smá stund og bætið síðan næsta

3. Hrærið lengi þar til þetta deig verður ljóst og létt

4. Á meðan deigið hrærist, blandið þurrefnum saman í skál

5. Bætið þurrefnunum út í ásamt súrmjólkinni og blandið vel saman á lágum hraða

6. Setjið í litla ofnskúffu eða stórt, eldfast mót (við notum svoleiðis) þannig að kakan sé pínu þykk og bakið í 35 mínútur (styttra ef þið bakið í stórri ofnskúffu)

 Image

Kremið – Innihald

1 pakki flórsykur
2 msk kakóduft
3 „sköfur“ af smjöri
1 tsk vanilludropar
Rjómi

Kremið – aðferð:

1. Setjið pakka af flórsykri í skál ásamt kakóinu.

2. Bætið út í bráðnu smjöri ásamt vanilludropunum og rjóma

3. Blandið kreminu saman og bætið rjóma við þar til kremið er frekar þykkt, en samt mjúkt

4. Þegar kakan hefur staðið á bekknum í 5-10, setjið kremið á og berið fram.

ATH! Stórmerkilegt, en þessi skúffukaka er jafnvel betri eins dags gömul! 🙂

Verði ykkur að góðu!

– Unnur Anna

Nammi gott í barnaafmælið!

Ég er að æfa dans hjá Point Dansstúdíó. Ég hef hæft dans í 8 ár og byrja í haust mitt níunda. Ég er líka að kenna dans og þennan veturinn var ég að kenna hóp sem heitir A2 og það voru 6-8 ára stelpur. Eftir vorsýningu skólans bauð ég stelpunum heim til mín í smá „kveðjupartý“ þar sem við borðuðum margt gott, fórum í leiki og allar stelpurnar fóru með smá pakka frá mér heim.

Image

Meðal annars sem við borðuðum var þetta hér. Þetta heitir „Nammi gott“ og er algjört nammi gott! Ég var oft með þetta í afmælum hjá mér þegar ég var lítil og alltaf þegar krakkarnir smökkuðu þetta heyrðist í þeim „mmm… þetta er nammi gott!“

Uppskriftin er mjög einföld

Nammi gott – Innihald:

 • 75 g. smjörlíki
 • 300 sykurpúðar
 • 15 dl rice crispies
 • 2,5 dl. M&M/Smarties
 • 12 pappa- eða plastglös
 • 12 sleikjó- eða frospinnaprik eða plastskeiðar. (Fást í A4)

Aðferð:

 • Blandið saman rice crispies og M&M/Smarties í skál
 • Bræðið smjörlíkið og sykurpúðana í stórum potti á meðalhita og hræra í.
 • Hrærið bræðingnum saman við rice crispies blönduna og blandið vel.
 • Setjið blönduna  í glösin og stingið skeið/priki í miðjuna.
 • Kælið í ísskáp í 30 mín áður en þið takið þetta út.
 • Takið plastglösin utan af Nammi gottinu (Gætuð þurft að klippa glösin ef þetta er mjög klístrað 😉 )

Image

Image

Image

Meðal annars skárum við mamma út ávexti og settum á marglitaða kokteilpinna (fást í Hagkaup) og settum á melónu sem við höfðum skorið í tvennt. Þetta vakti líka mjög mikla lukku hjá stelpunum, og sérstaklega mangó-ið, sem við skárum út sem hjörtu! Þegar ávextirnir voru búnir, tókum við bara melónuna og skárum hana handa stelpunum!

Image

Við gáfum stelpunum líka bleika mjólk og það vakti heldur betur lukku, og bragðast sú bleika víst mun betur en sú hvíta 😉 (Samt er þetta bara mjólk með matarlit í!)

ImageSvo eru þetta pakkarnir sem stelpurnar fóru heim með!
Ótrúlega skemmtilegur dagur og ekkert smá gott Nammi gott sem ég mæli með!

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna