Jólasveinamöffins!

Image

Í dag kom jólablað Fréttablaðsins inn um lúguna hjá flestum Íslendingum. 🙂
Mjög fallegt blað með öllu mögulegu sem tengist jólunum. Meðal annars er ég með þessa uppskrift þar! Þar er rætt við mig um Cakes of Paradise og mínar jólahefðir. Mæli eindregið með því að þið gluggið í það! 🙂

Eins og kemur fram í blaðinu þá gerði ég þessi jólasveinamöffins fyrst árið 2011 fyrir bekkjarfélaga mína. Einföld og þægileg uppskrift sem kemur mjög krúttlega út! 🙂

Hér er uppskriftin:

Jólasveina möffins!

Möffins – Innihald:

 1 ¾ bolli hveiti
1 ½ bolli sykur
100 g smjörlíki
2 egg
1/3 bolli kakó
1 bolli súrmjólk
1 tsk natron
1 ½ tsk vanilludropar

Möffins – aðferð:

 1. Sykri og smjörlíki hrært saman
 2. Einu eggi í einu bætt út í og hrært aðeins á milli
 3. Vanilludropum bætt út í og hrært vel
 4. Þurrefnum bætt út í ásamt súrmjólkinni og blandað aðeins saman
 5. Sett í lítil (minni en þessi venjulegu) möffinsform
 6. Og bakað við 180° C  í  10 – 15 mín.

Image

Kremið – Innihald:

1 bolli síróp
4 msk sykur
2 stífþeyttar eggjahvítur

Kremið – aðferð:

 1. 1 bolla af sírópi og 4 msk af sykri sett í pott og  brætt.
 2. Á meðan blandan bráðnar eru eggjahvíturnar stífþeyttar.
 3. Sykurblöndunni er svo bættt út í eggjahvíturnar í mjórri bunu og hrært þar kremið verður þykkt
 4. Svo er kreminu sprautað á möffinsið, jarðaberi á hvolfi bætt ofan á og svo er aftur sprautað kremi til að gera dúskinn.

Image

Verði ykkur að góðu!
-Unnur Anna

Auglýsingar

Snjókorna Cupcakes!

Image

 

Sunnudagar til sælu. Sunnudagar einnig til hvíldar, fundar, lærdóms, hreingerningar, baksturs, bloggs og lesturs.
Já, stundum ætlar maður sér að gera of margt á einum degi. Dagurinn í dag er einmitt svoleiðis dagur. Ég ætlaði að gera allt að ofantöldu, en “óvart” varð lærdómur og lestur að víkja fyrir hinu. Kannski mæti ég bara með þessar cupcakes í tíma á morgun – þá yrði mér örugglega strax fyrirgefið að hafa ekki lesið mikið heima ;-).
Veturinn hefur aðeins verið að láta vita af sér á Akureyri seinustu vikuna. Það snjóaði og snjóaði, bíllinn festist svona 10 sinnum, krakkar sem og fullorðnir gerðu snjóhús og ég þurfti að moka mér leið út úr húsinu mínu.

Í tilefni af því ákvað ég að gera fínar vetrar-snjókornacupcakes. Þær eru afar fallegar og samt einfaldar í gerð.
Deigið er bara skúffukökudeig – uppskrift má finna hér. Kremið er hinsvegar nýtt – og alveg ótrúlega gott!!

 

Hér er uppskriftin

Image

 

Snjókorna-Cupcakes 

 

Deigið, eins og ég sagði áðan má finna hér. 
ATH! Í þeirri uppskrift er kakan bökuð í 30-35 mín en bollakökurnar þurfa bara ca 20 mín.
Gott að stinga prjóni í kökurnar og ef að ekkert deig festist á prjóninum þá eru þær til :).

Leyfið bollakökunum að kólna áður en þið byrjið á kreminu því það þarf að sprauta því á um leið og það er búið til. 🙂

 

Kremið – Innihald:

 

4 eggjahvítur

1 bolli sykur

¼ tsk Cream of Tartar

1 tsk vanilludropar

 

Kremið – aðferð:

 

 1. Eggjahvíturnar ásamt sykri og Cream of Tartar sett í skál sem þolir hita.
 2. Skálin síðan sett yfir pott af heitu vatni og hitað upp í 70°C og pískað allan tíman.
 3. Þegar blandan hefur náð 70°C er hún færð yfir í hrærivél og byrjað að hræra hægt og svo hraðar og hraðar og blandað þangað til kremið er orðið stíft.
 4. Þá er vanilludropum ásamt matarlit (ef þið viljið) bætt út í og hrært aðeins.
 5.  Kreminu síðan sprautað á.

 

Image

 

 

Snjókornin:

 

 • Hægt er að nota hvítt súkkulaði brætt og sprautað á smjörpappír eins og snjókorn.
 • Gott að teikna snjókornin á smjörpappírinn.
 • Setjið í frysti eða opnið glugga þannig að súkkulaðið harni og takið svo af smjörpappírnum með spaða og setjið á kökurnar. Gaman er að skreyta þær líka með litlum kúlum 🙂 . 
 • Mér finnst stundum hvíta súkkulaðið vera of gulleitt og þess vegna notaði ég núna mjallarhvítan súkkulaðihjúp, sem fæst hér á alltikoku.is

 

 

 

 

Image

 

 

Image

 

 

ImageKoma svona krúttlega út 🙂

 

 

Verði ykkur að góðu – og gleðilegan vetur! 
-Unnur Anna

 

Eplakaka Örnu frænku :)

Image

Fjölskyldan mín er mjög náin. Við erum öll svo góðir vinir, alltaf góð við hvort annað. Við eigum eitt sameiginlegt og það er það að við erum öll mjög upptekin –  í dansi, ljósmyndaklúbbi, fótbolta, skólanum og í fleiru. Þess vegna eru sumir dagar þannig að við erum öll upptekin á sitthvorum tímanum og hittumst þá lítið sem ekkert.
Þessa helgi var ég í Reykjavík í menningarferð með skólanum, mamma fór í ljósmyndaleiðangra, systir mín mikið að læra og allir bara mjög uppteknir. Ég kom svo heim í kvöld og þá voru loksins allir heima saman. Við elduðum því góðan mat og höfðum það kósí.
Eftir matinn ákváðum við systur að baka eplaköku. Við systur erum kannski ólíkar í útliti, en við erum eins og ein sál – og hún er alveg lang besta vinkona mín. Ég elska að vera með henni – og að baka með henni er algjör snilld! Við skemmtum okkur konunglega og mömmu fannst sko ekkert leiðinlegt að mynda okkur. 🙂

Uppskriftina fékk ég frá Örnu systur mömmu, og er uppskriftin afar einföld og ofboðslega góð!!
Hér kemur uppskriftin:

Image

 

 Eplakaka – Innihald:

3 – 4 epli

Slatti af kanelsykri

200 g hveiti

200 g sykur

200 g smjörlíki

Image

Eplakaka – Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 240 °C
 2. Skerið 3-4 epli í bita og setjið á botnin á forminu sem þið ætlið að nota
 3. Stráið slatta af kanelsykri yfir eplin
 4. Setjið hveiti og sykur í skál og blandið aðeins.
 5. Bætið linu smjörlíki út í og hnoðið aðeins með höndunum
 6. Hnoðið deigið í kúlu og setjið í kæli í 5-10 mín
 7. Takið deigið úr kæli og skerið í þunnar sneiðar og dreifið yfir eplin þannig að það sjáist ekki lengur í þau.
 8. Bakið í 20 – 25 mín eða þar til deigið hefur brúnast aðeins og verður pínu stökkt ofan á – en alls ekki of stökkt!
 9. Best að bera fram með vanillu ís! 🙂

Image

Verið að strá kanelsykrinum yfir eplin.

Image

Fínt að blanda eplunum pínu upp úr kanelsykrinum 🙂

Image

Deigið skorið í þunnar sneiðar..

Image

.. og dreift á eplin.

Image

… fyllt upp í götin 🙂

Image

… og voila!

Verði ykkur að góðu! 

– Unnur Anna

Belgískar vöfflur!

Image

Jæja, kominn tími á bloggfærslu. Ekki seinna vænna. Ég vildi koma mér almennilega inn í skóla-dans-vinnu-rútínuna áður en ég kæmi síðunni á almennilegt vetrarról og því hefur verið aðeins lengri bið en venjulega eftir nýju bloggi – og aðeins of löng bið af mínu mati!

Mér finnst voða gott að vera komin í vetrar-rútinuna aftur. Aðeins farið að kólna,  orðið kósí dimmt á kvöldin, æfingar byrjaðar og ég get ekki beðið eftir því að snjórinn komi og ekkert verði betra en heitt mömmukakó til að hlýja sér. (Sá á vedur.is að það er spáð -16°C á Akureyrinni í næstu viku – það er kannski aðeins of mikið…)

Þessi uppskrift af belgískum vöfflum er orðin einskonar hefð að gera hjá mömmu fjölskyldu þegar einhver á afmæli, sérstaklega hjá systur mömmu, Auði. Þær eru svo góðar og stökkar, og ekkert smá gott að setja ís, sósu, ber og flórsykur á þær!

Við eigum heima svona belgískt vöfflujárn sem gerir vöfflurnar svona þykkri, kassalaga og stökkar. Ég hef því ekki prófað að gera belgískar vöfflur með venjulegu vöfflujárni, það gæti alveg sloppið, en þó veit ég það ekki. Endilega látið mig vita hvernig fer ef þið gerið vöfflurnar í venjulegu vöfflujárni!

 En hér er hægt að kaupa belgískt vöffllujárn og ég mæli sko alveg með því!!

 Hér er uppskriftin:

Image

Belgískar vöfflur – Innihald: 

100 g. smjörlíki
75 gr. sykur
2 egg
Vanilludropar
Salt af hnífsoddi
250 g hveiti
3 sléttfullar tsk lyftiduft
3 dl mjólk

Image

Aðferð:

 • Smjör og sykur þeytt saman í hrærivél
 • Einu eggi bætt út í, í einu og hrært aðeins á milli
 • Vanilludropum bætt út í og hrært aðeins
 • Salti, hveiti og lyftidufti bætt útí ásamt mjólkinni og hrært rólega saman.
 • Ein stór ausa af vöffludegi sett í vöfflujárnið og hitað í 2-3 mín.
 •  Borið fram með ís, súkkulaðisósu, berjum og smá flórsykri á toppinn.

Image

Verði ykkur að góðu!

– Unnur Anna

Gömlu góðu skinkuhornin!

Image

Ég er að vinna á Hamborgarafabrikkunni hér á Akureyri og hef verið í allt sumar. Ég er að vinna með yndislegum krökkum og stemmingin er alltaf ofboðslega góð. Nú á ég bara eftir að vinna í tvo daga áður en ég fer í útskriftarferðina og verð svo bara að vinna aðra hverja helgi eftir það. Þess vegna fannst mér það kjörið að bjóða fallegu, bleiku vaktinni minni í kökupartý í dag, svona áður sumarið klárast alveg. Ég bakaði nokkrar gerðir af kökum, en sú gerð sem sló alveg í gegn hjá mér voru gömlu góðu skinkuhornin okkar.

Það kom mér svosem ekkert á óvart, þessi skinkuhorn hafa alltaf verið vinsæl hjá okkur í afmælum og veislum. Þau eru ótrúlega mjúk og fyllingin inní er ekkert smá góð.  Því sá ég ekkert annnað í stöðunni en að setja uppskriftina af þessum frábæru skinkuhornum hingað inn og leyfa fleirum að njóta! 🙂 Í einni uppskrift eru 24 skinkuhorn, svo ég mæli alveg með því að gera fleiri en eina uppskrift í afmælum og svona, því þetta fer hratt! Hér er uppskriftin:

Image

Skinkuhorn – Innihald:

2 dl volgt vatn
1 poki þurrger ( 11 g )
1 tsk salt
1 tsk sykur
50 g smjörlíki
330 g hveiti

Fylling:

1/2 dós sveppasmurostur (stór dós)
1/2 stórt skinkubréf

Fylling aðferð: 

Saxið skinkuna og blandið saman við smurostinn!

Image

Skinkuhorn – Aðferð:

 • Hitið ofninn í 225°C
 • Leysið gerið upp í volgu vatni.
 • Á meðan gerið leysist upp, blandið þurrefnunum saman í stórri skál
 • Blandið linu smjörlíki samanvið.
 • Blandið gerinu og vatninu við allt hitt.
 • Hnoðið vel
 • Setjið í skálina aftur og geymið í smá stund á meðan þið gerið fyllinguna.

Image

 • Skiptið deiginu svo í þrennt,
 • Fletjið út, eitt í einu, í kringlótta köku
 • Skiptið kökunni svo í 8 hluta (eins og pizza)
 • Setjið 1-2 tsk af fyllingu á hvern hluta, (getið séð hvert ég set fyllinguna á myndinni hér fyrir neðan)
 • Rúllið deiginu upp frá breiðari endanum, og snúið svo upp á hornin, svo það leki ekki allt úr þeim. (sýnt á mynd hér að neðan)
 • Látið hefast á hlýjum stað í 30 – 40 mínútur.
 • Penslið skinkuhornin með sundursleggnu eggi og bakið svo í 10 mín.

Image

Ég nota kleinuhjól til að skipta deiginu

Image

Mér finnst betra að setja meira en minna af fyllingu í skinkuhornin 🙂

Image

Svona rúlla ég upp á hornin á skinkuhornunum, svo fyllingin leki ekki út 🙂

ImageSvo eru skinkuhornin pensluð með sundurslegnu eggi!

Þessi skinkuhorn bragðast best heit, eða volg. Það er ekkert mál að frysta skinkuhornin í nokkrar vikur og hita þær bara á lágum hita í ofni áður en þær eru borðaðar 🙂

Verði ykkur að góðu!

– Unnur Anna

Mojito sumarsafi!

Image

Ég sit úti á palli í þvílíkt góðu ágúst veðri. Fallegt brúðkaup bróður míns er nú afstaðið, versló og fiskidagurinn búinn og nú er ekkert annað að gera en að blogga einni uppskrift og bíða eftir útskriftarferðinni!

Jú, ég er  nefnilega að fara í 4. bekk í MA í haust, ár áranna eins og sumir segja… 🙂 Núna strax í haust er ég að fara með árgangnum til Costa del Sol á Spáni og verðum við í 11 daga.  Á meðan ég bíð eftir sólinni, ströndinni og ísköldum mojito verð ég að láta duga safa sem mamma gerði handa mér um daginn sem hún sagði að væri mjög líkur mojito.
Ég, full af efasemdum smakka þennan drykk og  viti menn, þessi safi er mjög líkur mojito, að sjálfsögðu áfengislaus og bara mjög góður sumardykkur.
Og já, það er enn hægt að drekka sumardrykk því það er bara ágúst, sumarið er ekki búið og það er ekki komið haust! Hjá mér er allavegana 18°C, smá sól og þessi yndislegi mojito safi við hönd, ekki slæmt það 😉
En hér er uppskriftin:

Image

Innihald:

1 lime

10 myntulauf

Egils lime og sítrónu þykkni

Kolsýrt vatn

klakar

Image

Aðferð:

Aðferðin er mjög einföld,
1 skorið lime og 10 myntulauf sett í skál og marið aðeins, svo sett í könnu.
Bætið helling af klökum í könnuna.
Bætið svo út í 1 hluta af Egils lime- og sítrónuþykkni á móti 9 hlutum af kolsýrðu vatni.
Blandið aðeins saman með sleif 🙂

Best ískalt!

Image

Þessi drykkur er meira segja góður fyrir 4 ára krakka, aðeins til að stilla þorstann eftir öll hlaupin úti 🙂

Skúffukaka Agnesar frænku!

Sumarið er aðeins of fljótt að líða. Ég er búin að vera á fullu í vinnunni, baka fyrir aðra, hjálpa til við brúðkaupsundirbúning hjá bróður mínum og hef voða lítið haft tíma fyrir að baka, hvað þá að blogga!  En nú í dag er ég loksins í fríi og þá er ekkert annað í stöðunni en að setja eina uppskrift inn og er hún ekki í verri kantinum, hin umtalaða skúffukaka Agnesar frænku.

Þessi skúffukaka er ótrúlega góð og fylgir skemmtileg saga með henni.
Agnes frænka er systir ömmu minnar og þessi skúffukaka kemur upprunalega frá henni. Svo fékk mamma mín, sem heitir líka Agnes, uppskriftina og erum við mæðgur mjög duglegar við að baka hana. Hún hefur vakið mikla lukku og hafa margir fjölskyldumeðlimir farið með uppskrift af henni heim úr afmælum. Ættingjar okkar eru því líka að fá uppskriftina frá Agnesi frænku og hefur því nafnið á skúffukökunni haldist, Skúffukaka Agnesar frænku! 🙂

En hér kemur uppskriftin og ég lofa að vera duglegri að setja inn blogg, sérstaklega eftir brúðkaupið hjá bróður mínum! 😉

Image

Skúffukaka Agnesar frænku

innihald:

250 g smjörlíki
350 g púðursykur
2 egg
350 g hveiti
2 msk kakóduft
1 tsk matarsódi
250  mL súrmjólk

Aðferð:

1. Hitið ofnin í 180°C. Hrærið saman mjúku smjörlíki og púðursykri þar til deigið verður ljóst og létt

2. Bætið einu eggi út í, hrærið í smá stund og bætið síðan næsta

3. Hrærið lengi þar til þetta deig verður ljóst og létt

4. Á meðan deigið hrærist, blandið þurrefnum saman í skál

5. Bætið þurrefnunum út í ásamt súrmjólkinni og blandið vel saman á lágum hraða

6. Setjið í litla ofnskúffu eða stórt, eldfast mót (við notum svoleiðis) þannig að kakan sé pínu þykk og bakið í 35 mínútur (styttra ef þið bakið í stórri ofnskúffu)

 Image

Kremið – Innihald

1 pakki flórsykur
2 msk kakóduft
3 „sköfur“ af smjöri
1 tsk vanilludropar
Rjómi

Kremið – aðferð:

1. Setjið pakka af flórsykri í skál ásamt kakóinu.

2. Bætið út í bráðnu smjöri ásamt vanilludropunum og rjóma

3. Blandið kreminu saman og bætið rjóma við þar til kremið er frekar þykkt, en samt mjúkt

4. Þegar kakan hefur staðið á bekknum í 5-10, setjið kremið á og berið fram.

ATH! Stórmerkilegt, en þessi skúffukaka er jafnvel betri eins dags gömul! 🙂

Verði ykkur að góðu!

– Unnur Anna