Danskur Lakrids-ís

Lakkrísís-3

Ég elska apríl. Í apríl er farið að birta bæði kvölds og morgna og maður heyrir jafnvel smá fuglasöng þegar maður vaknar. Ég elska að sjá fólk lifna við eftir veturinn, í göngutúrum, úti að skokka eða hjóla og að sjá raðirnar í ísbúðirnar.

Talandi um ís, þá er þessi uppskrift af ís alveg sérstaklega góð. Grunnuppskriftin er eldgömul uppskrift frá langaömmu minni Helgu. Hún gerði ísinn bara á jólunum og gerði mikið af honum, enda átti hún fimm stráka og fullt af barnabörnum sem öll biðu spennt eftir honum.

Taka skal fram að grunnuppskriftina geri ég ennþá BARA á jólunum ;-). En við mæðgur ákváðum aðeins að leika okkur með uppskriftina og breyta henni. Þessi ís er tilvalinn sem eftirréttur fyrir sumardaginn fyrsta, eða bara við hvaða tækifæri sem er!
Ath. það þarf að frysta hann amk yfir nótt þannig hann þarf að vera gerður allavegana degi áður en hann er borinn fram.

Lakkrísís-8

Við mæðgur erum nefnilega orðnar “húkt” á Lakrids frá Johan Bülow sem hægt er að kaupa í Sjoppunni, vöruhúsi sem er í Listagilinu hérna á Akureyri. Lakrids fæst þar í allskonar bragðtegundum og gerðum, kúlum, dufti og sýrópi. Ég vara ykkur við, þegar þið smakkið þá er ekki aftur snúið, þetta er svo gott!!

Sjoppan Vöruhús er með facebook síðu hér þar sem talað er meira um Lakrids og þar getiði líka séð alla hina snilldina sem fæst í þessari minnstu hönnunarbúð landsins.

Hér er svo uppskriftin:

Lakkrísís-4

Danskur Lakrids-ís – Innihald:

 • 5 eggjarauður
 • 5 msk sykur
 • ½ L rjómi
 • 2 msk Fínt Lakridsduft frá Johan Bülow (Sjá hér)
 • ca 1 tsk gróft Lakridsduft frá Johan Bülow til að skreyta. (Sjá hér)
 • 1 dós rauðar Love chilli-lakkrískúlur frá Johan Bülow líka til skrauts (Sjá hér).

Lakkrísís-1

Danskur Lakrids-ís – Aðferð:

Áður en ég byrjaði á ísnum þá undirbjó ég formið. Ég setti smjörpappír í botninn. Ég mæli með að nota sílíkon form þannig það sé auðvelt að ná ísnum úr forminu, en annars er gott að setja smjörpappír á hliðarnar líka.

 

 • Þeytið eggjarauður og sykur saman mjög vel. Ég þeyti alltaf allavegana í 10-15 mínútur.
 • Bætið 2 msk af fína lakridsduftinu út í eggjablönduna og blandið saman
 • Þeytið rjómann vel og bætið honum svo varlega út í eggjablönduna með sleif.
 • Passið að blanda varlega saman!
 • Setjið ísinn í formið.
 • Stráið að vild fína lakridsduftinu yfir ísinn og svo grófa lakridsduftinu.
 • Setjið í frysti allavegana yfir nótt.
 • Rétt áður en ísinn er borinn fram er hann tekinn úr forminu.
 • Ég skreytti svo með rauðu Love chilli-lakkrískúlunum, þær eru í algjöru uppáhaldi.
 • Ég setti kúlurnar bæði í kringum ísinn, ofan á hann og svo muldi ég nokkrar og stráði ofan á.

Ís 1

Ís 2

Ís 3

Lakkrísís-7

Lakkrísís-6

Lakkrísís-5

Lakkrísís-2

Svo er bara að njóta!

Eins og alltaf stílisera ég lúkkið en mamma tekur fallegu myndirnar. Facebook síðan hennar er hér Agnes Skúla

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

Auglýsingar

Hafrakökur með hindberjahjörtum

 

IMG_1937-Edit

Þriðji í aðventu núna og fjórði nálgast hratt. Ég elska aðventuna og jólaundirbúningin, næstum því meira en sjálf jólin. Það er bara eitthvað svo yndislega huggulegt við þetta allt saman. Reyndar hefur mér fundist þessi aðventa líða aðeins of hratt og mér finnst ég eiga eftir að gera aðeins of margt á aðeins of fáum dögum.

En í dag náði ég að baka eina sort af smákökum, eitt til að krossa af listanum og ákvað að deila með ykkur!

IMG_1940-Edit

Þessi litlu sætu jólakökur eru ótrúlega góðar! Það sem mér finnst enn betra er að þær eru ekki jafn óhollar og þær kannski líta út fyrir að vera… og mun hollari en flestar aðrar jólasmákökur! Það er smá dund að gera þetta, eins og kannski flest annað sem ég geri, en þær eru svo krúttlegar að dundið verður algjörlega þess virði.

Hafrakökurnar – Innihald:

 • 2 dl heilhveiti
 • 2 1/2 dl möndlumjöl
 • 5 dl haframjöl, kurlað í mjöl (notaði töfrasprota)
 • 1/2 tsk salt
 • 1 1/4 dl hlynsíróp
 • 1 1/4 dl matarolíaKökuriparadis2

Hafrakökurnar – Aðferð:

 • Öllum þurrefnum blandað saman í skál.
 • Hrærið saman hlynsírópi og matarolíunni og hellið saman við þurrefnin.
 • Blandið saman með sleif og hnoðið svo vel.
 • Deigið verður mjög þurrt til að byrja með en það þarf bara hnoða það vel.
 • Degið er svo geymt í ca 15 mínútur, eða á meðan þið gerið hindberjasultuna.

kökuriparadis3

Hindberjasultan – Innihald:

 • 300 g frosin hindber
 • 50 g hrásykur

 

kökuriparadis4

 

Hindberjasultan – Aðferð:

 • Sett í pott og soðið við vægan hita þar til það verður þykkt (ca 15-20 mín)
 • Mótið svo litlar kúlur úr hafradeiginu og notið svo endana á teskeið eða eitthvað svoleiðis til að móta lítil hjörtu ofan í kökurnar. Þetta tekur smá tíma en kemur ótrúlega vel út.
 • Síðan er hindberjasultan sett með teskeið í hjörtun sem eru í hafrakökunum, en gerið þetta varlega og setjið lítið í einu svo það fari ekki allt út um allt.
 • Stundum er afgangur af hindberjasultunni og þá set ég hana bara í krukku og inn í ískáp og nota þess vegna á ristað brauð.

 

Kökuriparadis5

Mikið dund en mikið gaman að gera þessi hjörtu. 🙂

kökuriparadis6

IMG_1921-Edit

 

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

 

Englakökur

 

Jólin nálgast með tilheyrandi jólastússi, hreingerningu, gjafainnkaupum og að sjálfsögðu jólabakstri. Við fjölskyldan erum dugleg að baka fyrir jólin og eru nokkrar kökur ómissandi á okkar heimili fyrir hver jól. Þá má til dæmis nefna lakkrístoppana sígildu, piparkökur, laufabrauð og englakökur. Flestir kannast við fyrstu 3 kökugerðirnar en færri kannast við englakökurnar en þær hafa verið fastur liður í jólabakstrinum hjá okkur síðan ég man eftir mér.

IMG_1363-Edit-Edit

Þetta eru æðislegar kökur, bæði góðar á bragðið og líka alveg ótrúlega fallegar litlar kexkökur með flórsykursmarens ofan á. Uppskriftin er auðveld en þetta er smá dund, að skera kökurnar út og setja marensinn á þær allar, en algjörlega þess virði að gera.

samsett kökur 1

Englakökur
Kexbotn – Innihald:

 • 200g smjörlíki/smjör
 • 125g sykur
 • 250g hveiti
 • 2 litlar eggjarauður
 • 1/2 tsk hjartarsalt

Kexbotn – Aðferð:

 • Stillið ofninn á blástur, 180°C
 • Öllu blandað saman og hnoðað í hrærivél
 • Deigið sett á borð og vel af hveiti með og hnoðað í fallega kúlu.
 • Deigið er síðan sett í kæli og geymt þar í 15 mínútur
 • Skiptið deiginu í ca 4 hluta og fletjið deigið frekar þunnt út.
 • Skerið út litlar kökur á stærð við fimm krónu pening
 • Geymið á plötu á meðan þið gerið marensinn.

IMG_1248-EditIMG_1247-Edit

samsett 7

 

Marens – Innihald:

 • 4 eggjahvítur
 • 300g flórsykur

IMG_1263-Editsamsett 5

Marens – Aðferð:

 • Eggjahvíturnar og flórsykurinn sett í skál og þeytt þar til orðið stíft.
 • Sett í sprautupoka með stjörnustút og sprautað á kökurnar.
  • Oft skipti ég marensinum í tvennt og hef annan helminginn hvítan en lita hinn helminginn. Í þetta skiptið litaði ég annan helminginn bleikan, en ekki hvað! 😉
 • Þegar búið er að sprauta á allar kexkökurnar er þetta sett í ofn stilltan á 180°C í 8-10 mínútur eða þar til kexbotninn er orðinn ljósbrúnn.

 

 

IMG_1295-EditIMG_1319-Edit

samsett 8

Svo er bara að njóta ♥

IMG_1341-Edit-2

Ætla að reyna að vera dugleg að setja inn nokkrar jólauppskriftir!

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

 

 

 

 

Lego sykurpúðar!

.Það hefur aldeilis margt á daga mína drifið síðan seinasta blogg var skrifað. Ég kláraði Hússtjórnarskólann í Reykjavík seinasta haust og þvílíkur draumur sem það var að fara í þann skóla. Lærdómur sem allir hafa gott af, strákar og stelpur.
Eftir Hússtjórnarskólann flutti ég svo til Silkeborgar í Danmörku þar sem ég er nú au-pair hjá yndislegri fjölskyldu. Ég er búin að læra svo margt um lífið og tilveruna á þessum 5 mánuðum sem ég hef verið hjá þeim. Það verður skrýtið að fara heim núna í júní og ég kem til með að sakna allra hérna í Danmörku ótrúlega mikið. En ég er þó líka farin að hlakka mjög mikið til þar sem það bíður mín auðvitað margt heima.

   Screen Shot 2015-05-18 at 01.12.19

Seinasta föstudag varð eldri strákurinn sem ég passa 5 ára. Við héldum afmælispartý með ninjago lego ívafi þar sem honum finnst það mjög spennandi. Það var föndrað, skreytt og bakað og það kemur kannski ekkert á óvart en mér þótti þessi afmælisundirbúningur sko ekki leiðinlegur. 😉

Á morgun fer hann svo með bakstur í leikskólann til að fagna afmælinu þar. Við ákváðum að gera lego-hausa sykurpúða. Þeir komu heldur betur skemmtilega út og eru mjög auðveldir í framkvæmd!

IMG_2032-Edit

Lego-hausar – Innihald:

Sykurpúðar, venjuleg stærð.

Litlir sykurpúðar. (Til í søstrene grene)

½ Poki, gulur Candy Melts (Fæst t.d. í Allt í köku)

Ca 1 msk Kókosolía eða palmínfeiti

Grillpinnar eða kökupinnar

IMG_2044-Edit

Lego hausar – Aðferð:

 • Setjið stóran sykurpúða á grillpinna og svo lítinn ofan á þann stóra. Ég geymi grillpinnana svo á froðuplastbita, en einnig er hægt að nota glös og setja sykur í glösin og stinga pinnunum svo í.

Screen Shot 2015-05-18 at 01.12.08

 • Bræðið candy melts á lágum hita í örbylgjunni. Bætið kókosolíunni út í, aðeins til að þynna. Gott að geyma sykurpúðana á pinnunum í ísskápnum á meðan þið bræðið candy melts af því það harðnar betur á sykurpúðunum ef þeir eru kaldir!
 • Takið einn og einn sykurpúðapinna í einu út úr ísskápnum og dýfið í sykurbráðina. Gott að hafa í háu, mjóu glasi þannig að það sé hægt að dýfa öllum sykurpúðunum ofan í, en einnig er hægt að taka skeið og moka yfir sykurpúðana.
 • Látið sykurbráðina leka af sykurpúðunum. Gott að “banka” pínu á pinnan og snúa pinnanum þannig að það leki fljótar af og hætti hraðar að leka. Setjið pinnan svo aftur í ísskápinn.
 • Þegar öllum pinnunum hefur verið dýft í candy melts þá er fínt að geyma þá í kæli í ca 5-10 mín og gera glassúr á meðan til að teikna andlitin.

Glassúr

Setjið ca 3-4 msk af flórsykri í skál og 1-2 tsk vatn.

Það er best að hafa glassúrinn vel þykkan svo að hann leki ekki af pinnunum. Setjið síðan svartan matarlit út í. Ég mæli eindregið með Wilton gel-matarlitnum sem fást einnig í Allt í köku.

Svo er bara að skella þessu í sprautuplastpoka með litlu gati/litlum stút og gera andlit! Gaman að hafa þau mismunandi.

Ég hlakka til að heyra hvernig krökkunum á leikskólanum leist á þetta og vona að ykkur muni finnast eins gaman og mér að gera þetta! Leyfi svo nokkrum myndum úr afmælinu og undirbúningnum að fylgja með!

Screen Shot 2015-05-18 at 01.11.50Hér má sjá Regnboga ávexti, Nammi gott, en uppskriftina af því má finna hér – og sjálfa Ninjago kökuna!

IMG_1839

Já og svo tvær af mér og afmælisbarninu!

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

Whoopie pies!

Image

Nú er ég eins og 29.000 aðrir framhaldskólanemendur í verkfalli. Það mætti því halda að ég hefði ekkert að gera og leiddist alla daga, en ég kann það víst ekki og finn mér því alltaf eitthvað að gera. Nú er ég að leika í leikriti hjá Leikfélagi Menntaskólans (LMA) og við erum að setja upp leikritið Vorið vaknar (Spring Awakening). Við erum á mjög mörgum æfingum, á hverjum degi frá morgni til kvölds. Það er samt æðislega gaman, frábærir krakkar og skemmtilegt leikrit. Við frumsýnum 3. apríl. Mæli með því að allir næli sér í miða þegar miðasalan opnar!
En allavegana, við erum í æfingafríi þessa helgi og því ákvað ég að skella einu bloggi á síðuna og baka Whoopie pies!

Whoopie pies eru kökur sem ekki margir hafa heyrt um. Whoopie pies eru einskonar samlokur, gerðar úr tveimur mjúkum smákökum með gómsætum kremfyllingum inní.
Konur úr Amish samfélögum í gamla daga bökuðu þessar kökur úr afgangs deigi sem þær áttu og gáfu börnum sínum og mökum sem hádegis-nesti. Þegar krakkarnir og mennirnir opnuðu svo nestisboxin sín hrópuðu þau af ánægju: “Whoopie!” og þaðan er nafnið af whoopie bökunum komið!

Það tekur alls ekki langan tíma að baka þessar kökur og hægt er að leika sér þvílíkt mikið með hugmyndaflugið við að gera þær. Ég fékk bók um þessar kökur í afmælisgjöf fyrir tveimur árum frá systrum mömmu og þar má finna yfir 80 mismunandi útgáfur af þessum kökum! Ótrúlega skemmtileg bók og girnilegar uppskriftir sem ég ætla mér að deila með ykkur á næstunni á þessari síðu!

Þessi uppskrift sem ég gerði núna er bara svona “basic” uppskriftin. Ég setti svo bara bleikan matarlit út í degið og kremið og skreytti aðeins.

Hér er uppskriftin:

Image

Whoopie pies – kökurnar – Innihald:

225 g hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
115 g smjörlíki
250 g sykur
2 egg
2 tsk vanilludropar
125 g sýrður rjómi
Matarlitur (val)

Image

Whoopie pies – kökurnar – Aðferð:

1. Stillið ofninn á 180°C.
2. Setjið hveiti og lyftiduft saman í skál og blandið saman með skeið.
3. Þeytið saman egg og sykur í hrærivél.
4. Bætið einu eggi í einu útí og hrærið vel á milli.
5. Bætið vanilludropunum útí og hrærið vel.
6. Setjið hveitiblönduna saman við ásamt sýrða rjómanum og blandið saman.
7. Ef þið ætlið að setja matarlit útí, þá gerið það hér og blandið saman.
8. Setjið deigið í sprautupoka (fást í Ikea) og sprautið þannig að þvermálið sé 3 cm á hringjunum.
(Ég á mottu þar sem öðrum megin er hægt að setja makkarónur á og hinum megin eru aðeins stærri hringir og þar fara whoopie pies. Ef þið notið svoleiðis mottu passið að fylla ekki alveg út í hringina heldur hafa degið bara 3 cm í þvermál. Það lekur út og stoppar á ytri hringjunum. 🙂
9. Bakið í 7-10 mínútur, stingið þá prjóni í kökurnar og ef ekkert deig festist á prjóninum þá eru kökurnar til!
10. Leyfið þeim að kólna áður en þið setjið kremið á.

Image

Kremið – Innihald:

4 eggjahvítur
200 g sykur
1 tsk vanilludropar
225 g smjör við stofuhita

Image

Kremið – Aðferð:

1. Setjið sykur og eggjahvítur í skál sem þolir hita
2. Setjið skálina yfir pott með vatni í og hitið vatnið. Hrærið stanslaust í sykurblöndunni þar til sykurinn hefur verið leystur upp.
3. Setjið þá sykurblönduna í hrærivél og stífþeytið blönduna.
4. Bætið vanilludropum útí og hrærið.
5. Setjið smjörið í, einn bita í einu og hrærið vel. Kremið á það til að skilja sig en ekki örvænta – hrærið bara áfram og það verður allt í lagi.
6. Setjið matarlit út í ef þið viljið og hrærið vel.
7. Smyrjið kreminu á með hníf og lokið „samlokunni“
8. Svo er hægt að skreyta kökurnar með einhverskonar kurli eins og sést hér fyrir neðan.

Image

Svo er bara að njóta… 🙂

Image

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

Konudags-snúðar!

Image

Mér finnst vorönnin alltaf einstaklega skemmtileg, þá gerist svo margt. Það hlýnar, það kólnar, það birtir, margt skemmtilegt í skólanum, þorri,  það hlýnar aftur, bóndadagur og seinast en ekki síst, konudagur.
Heima hjá mér hefur aldrei verið haldið almenninlega upp á konu- og bóndadaginn, nema kannski með því að baka og bjóða í kaffi.
En hefðir eru auðvitað mismunandi milli fölskyldna og mér finnst alltaf gaman að kynnast nýjum hefðum. Hjá sumum fjölskyldum fá strákarnir á heimilinu yfirleitt mat í rúmmið á bóndadeginum og stelpurnar sömuleiðis á konudeginum.

En nú einmitt, styttist í konudaginn og hann er næsta sunnudag. Þessi kanelsnúðauppskrift er, að mínu mati, tilvalin sem konudagsbakstur, hvort sem á að bera hann fram um morgun eða í kaffi – og ég tala nú ekki um þegar snúðunum er raðað upp í svona krúttlegt hjarta. Snúðarnir eru með guðdómlegu kremi.

Nú hefur bakstur oft verið tengdur við konur og þekkt er að sumir karlar segi að konur eigi að bara vera í eldhúsinu en ekki þeir. En kommon – við lifum á 21. öldinni og ég legg til að þessi setning verði gleymd og ekki einu sinni sögð í gríni. 🙂

Þannig að nú skora ég á alla karlmenn sem lesa þetta blogg – að baka þessa snúða fyrir konurnar sínar næsta sunnudag, á konudaginn.

Hér er uppskriftin:

Image

Snúðadeig – Innihald

235 ml volg mjólk
10 g ger
620 g hveiti
1 tsk salt
100 g sykur
75 g bráðið smjörlíki
2 egg (við stofuhita)

Fylling í snúðana – Innihald

220 g púðursykur
15 g kanill
75 g bráðið smjör

Fylling í snúðana – Aðferð:

 1. Blandið púðursykrinum og kanilnum saman með skeið
 2. Bræddu smjörinu bætt út í og blandað saman með skeið

Image

Snúðar – Aðferð:

 1. Velgið mjólkina og setið gerið svo út í
 2. Blandið þurrefnum í skál
 3. Bætið bræddu smjörlíkinu við ásamt eggjunum og blandið aðeins saman við.
 4. Setjið svo mjólkina með gerinu út í deigið og hnoðið (Ráðið hvort þið hnoðið í vél eða í höndunum)
 5. Látið deigið hefast í 40 mínútur. (Gott að geyma skálina inn í örbylgjuofni)
 6. Skiptið deiginu í tvennt og fletjið hvorn hluta út í ferning, ca ½ cm þykkann (Setjið hveiti undir svo deigið festist ekki við bekkinn)
 7. Leyfið deiginu aðeins að jafna sig í ca. 10 mínútur.
 8. Dreifið fyllingunni út um allt deig, þannig að það sé þunnt lag af fyllingu á öllum ferningnum.
 9. Rúllið deiginu upp.
 10. Skerið snúðana þannig að þeir séu ca. 1 og ½ cm þykkir.
 11. Raðið þeim  á plötu eins og sést á myndinni fyrir ofan.
 12. Bakið við 200°C  í 10 – 15 mínútur.

 Á meðan snúðarnir eru í ofninum er tilvalið að gera kremið sem fer ofan á þá.

Image

Krem – innihald:

85 g rjómaostur
55 g bráðið smjör
200 g fljórsykur
1 tsk vanilludropar

Krem – Aðferð:

 1. Allt sett í skál og hrært saman með handþeytara.
 2. Þegar snúðarnir eru komnir út úr ofninum skal leyfa þeim aðeins að kólna áður en kremið er sett á.
 3. Kremið er síðan sett á með skeiðum, ca 1 tsk á hvern snúð.
 4. Ég gerði tvö hjörtu núna, 1 stórt og annað lítið og ég set ekki krem á litlu snúðana því sumir kjósa að borða snúðana án kremsins

Image

Image

Verði ykkur að góðu!
– Unnur Anna

Uglu-bollakökur!

Image

Jæja, tími til kominn að skella einu bloggi í gang, eftir langt jólafrí og próf. Já, próf í MA eru eftir jól og byrjuðu þau núna 9. Janúar og verða flest búin á miðvikudaginn næsta. Ég var heppin þetta árið og var aðeins í 3 prófum. Þegar þau kláruðust ákváðum við bekkurinn minn, 4.T, að hittast og borða saman. Við komum nokkur með eftirrétti og ég kom með bollakökur.
Þar sem svona aðal “merki” Menntaskólans á Akureyri eru uglur, kom ekkert annað til greina en að gera uglu-bollakökur til að fagna MA-próflokum! 🙂

 Þær komu svona skemmtilega á óvart og eru einfaldar í gerð.

 Uppskriftin af þessum bollakökum er einnig venjuleg kökuuppskrift sem við heima hjá mér köllum alltaf Ellu-köku. Ella er systir afa míns og alltaf í fjölskylduboðum með henni, er Ellu-kaka gerð. Ellu-kaka er ein af uppáhalds- kökunum mínum og er sko alls ekki verri sem bollakaka. Ein uppskrift gerir ca 18-20 bollakökur.

 Hér er uppskriftin:

Bollakökurnar – innihald:

1 ½ bolli sykur
100 g smjörlíki
2 egg
1 ½ tsk vanilludropar
1 ¾ bolli hveiti
1/3 bolli kakó
1 tsk lyftiduft
1 bolli súrmjólk

Bollakökurnar – aðferð:

 1. Stillið ofninn á 180°C.
 2. Sykur og smjörlíki hrært vel saman
 3. Einu eggi bætt útí, hrært örlítið, hinu svo bætt við og hrært vel
 4. Vanilludropum bætt útí, hrært vel.
 5. Á meðan blandan er hrærð saman, setjið hveiti, kakó og lyftiduft í skál og blandið saman með skeið
 6. Bætið út í hrærivélarskálina, ásamt súrmjólkinni og blandið aðeins saman.
 7. Setjið í bollakökuform, gott að nota ísskeið, eða fulla 2/3 af forminu
 8. Bakið í 17-20 mínútur eða þar til að ef þið setjið prjón í kökuna, kemur ekkert blautt deig á prjóninn þegar þið togið hann upp J
 9. Látið kólna ( í a.m.k 30 mín)

Kremið – Innihald:

230 g púðursykur
120 g sykur
tæpir 2dl vatn
2 eggjahvítur

Kremið – aðferð:

 1. Púðursykur, sykur og vatn sett í pott og hitað þar til sykurinn er bráðnaður (tekur stutta stund)
 2. Á meðan sykurinn er að hitna, stífþeytið eggjahvíturnar.
 3. Hellið svo úr pottinum í mjórri bunu út í stífþeyttu eggjahvíturnar og láta þeytast á meðan og í smástund á eftir.
 4. Setjið kremið á með borðhníf (þarf ekki að sprauta kreminu á þegar uglurnar eru gerðar) og setjið alveg slatta.

Image

Uglu-andlit – Innihald:

3 pakkar oreo-kex (tvö augu eru tvö oreo kex)
2 pokar m&m
(hægt að nota hvaða lit sem er, þá þarf bara 1 poka, en ég vildi bara hafa uglurnar með brún augu og þá þarf 2 pakka, restina er svo bara hægt að borða! 🙂 )
1 poki Freyju möndlur

Image

Uglu-andlit – aðferð:

 • Takið í sundur eins mörg oreo kex og þið þurfið (2 kex á hverja bollaköku)
 • Setjið eitt m&m á hvert oreo kex
 • Setjið oreo-kexin hlið við hlið á miðjuna á bollakökunum.
 • Setjið 1 möndlu á milli kexanna, fyrir nef.
 • Fyrir ofan augun eru síðan gerð eyru, með því að nota borðhníf og draga kremið aðeins út til hliðanna. 🙂

Image

Verði ykkur að góðu!
-Unnur Anna