Mömmukakó!

Image

Veturinn hefur svo sannarlega verið að gera vart við sig í þessari  viku, allavegana hér á Akureyri. Það hefur þó verið mjög fallegt veður, en samt mjög kalt, -18°C. Í skólanum hefur líka verið mjög kalt þessa dagana, enda MA mjög gamall skóli. Margir nemendur hafa því verið í úlpu, ullasokkum og með húfu í tímum. Því finnst mér við hæfi að koma með uppskrift af heimins besta kakói, það er svo gott í þessum kulda.
Það heitir því einfalda nafni, mömmukakó. Amma gerði það oft fyrir mömmu – og nú gerir mamma það oft fyrir okkur. Mamma gerir kakóið ósjaldan á svona köldum vetrardögum og ég veit ekkert betra en að drekka það og dýfa kringlum í.
Mömmukakó er mjög sætt kakó – og það er eiginlega það besta við kakóið. Mamma hefur oft reynt að minnka sykurinn í því, en við tökum alltaf eftir því þegar hún gerir það, því þá er kakóið ekki jafn gott. 😉

      Hér er uppskriftin:

Mömmukakó – innihald:

1 ½ lítri mjólk

300 g sykur

2 msk kakóduft

½ tsk salt

3-4 msk rjómi

1 tsk vanilludropar

Mömmukakó – aðferð:

  1. Setjið mjólkina í stóran pott og látið sjóða.
  2. Á meðan mjólkin er að hitna, setjið  sykur, kakóduft og salt í skál og blandið saman með skeið.
  3. Þegar mjólkin er farin að sjóða, lækkið hitann.
  4. Setjið tvær ausur af mjólk út í sykurblönduna og blandið vel saman þannig að allt leysist upp.
  5. Hellið svo blöndunni út í mjólkina og hrærið.
  6. Bætið rjómanum og vanilludropunum út í blönduna.

Kakóið er mjög gott með þeyttum rjóma, sykurpúðum og kringlum til að dýfa í! 🙂

Image

Verði ykkur að góðu!

– Unnur Anna

Auglýsingar