Mömmukakó!

Image

Veturinn hefur svo sannarlega verið að gera vart við sig í þessari  viku, allavegana hér á Akureyri. Það hefur þó verið mjög fallegt veður, en samt mjög kalt, -18°C. Í skólanum hefur líka verið mjög kalt þessa dagana, enda MA mjög gamall skóli. Margir nemendur hafa því verið í úlpu, ullasokkum og með húfu í tímum. Því finnst mér við hæfi að koma með uppskrift af heimins besta kakói, það er svo gott í þessum kulda.
Það heitir því einfalda nafni, mömmukakó. Amma gerði það oft fyrir mömmu – og nú gerir mamma það oft fyrir okkur. Mamma gerir kakóið ósjaldan á svona köldum vetrardögum og ég veit ekkert betra en að drekka það og dýfa kringlum í.
Mömmukakó er mjög sætt kakó – og það er eiginlega það besta við kakóið. Mamma hefur oft reynt að minnka sykurinn í því, en við tökum alltaf eftir því þegar hún gerir það, því þá er kakóið ekki jafn gott. 😉

      Hér er uppskriftin:

Mömmukakó – innihald:

1 ½ lítri mjólk

300 g sykur

2 msk kakóduft

½ tsk salt

3-4 msk rjómi

1 tsk vanilludropar

Mömmukakó – aðferð:

  1. Setjið mjólkina í stóran pott og látið sjóða.
  2. Á meðan mjólkin er að hitna, setjið  sykur, kakóduft og salt í skál og blandið saman með skeið.
  3. Þegar mjólkin er farin að sjóða, lækkið hitann.
  4. Setjið tvær ausur af mjólk út í sykurblönduna og blandið vel saman þannig að allt leysist upp.
  5. Hellið svo blöndunni út í mjólkina og hrærið.
  6. Bætið rjómanum og vanilludropunum út í blönduna.

Kakóið er mjög gott með þeyttum rjóma, sykurpúðum og kringlum til að dýfa í! 🙂

Image

Verði ykkur að góðu!

– Unnur Anna

Auglýsingar

Mojito sumarsafi!

Image

Ég sit úti á palli í þvílíkt góðu ágúst veðri. Fallegt brúðkaup bróður míns er nú afstaðið, versló og fiskidagurinn búinn og nú er ekkert annað að gera en að blogga einni uppskrift og bíða eftir útskriftarferðinni!

Jú, ég er  nefnilega að fara í 4. bekk í MA í haust, ár áranna eins og sumir segja… 🙂 Núna strax í haust er ég að fara með árgangnum til Costa del Sol á Spáni og verðum við í 11 daga.  Á meðan ég bíð eftir sólinni, ströndinni og ísköldum mojito verð ég að láta duga safa sem mamma gerði handa mér um daginn sem hún sagði að væri mjög líkur mojito.
Ég, full af efasemdum smakka þennan drykk og  viti menn, þessi safi er mjög líkur mojito, að sjálfsögðu áfengislaus og bara mjög góður sumardykkur.
Og já, það er enn hægt að drekka sumardrykk því það er bara ágúst, sumarið er ekki búið og það er ekki komið haust! Hjá mér er allavegana 18°C, smá sól og þessi yndislegi mojito safi við hönd, ekki slæmt það 😉
En hér er uppskriftin:

Image

Innihald:

1 lime

10 myntulauf

Egils lime og sítrónu þykkni

Kolsýrt vatn

klakar

Image

Aðferð:

Aðferðin er mjög einföld,
1 skorið lime og 10 myntulauf sett í skál og marið aðeins, svo sett í könnu.
Bætið helling af klökum í könnuna.
Bætið svo út í 1 hluta af Egils lime- og sítrónuþykkni á móti 9 hlutum af kolsýrðu vatni.
Blandið aðeins saman með sleif 🙂

Best ískalt!

Image

Þessi drykkur er meira segja góður fyrir 4 ára krakka, aðeins til að stilla þorstann eftir öll hlaupin úti 🙂